Lögðum hart að okkur að fá leikmenn

Sean Dyche, knattspyrnustjóri Everton.
Sean Dyche, knattspyrnustjóri Everton. AFP/Oli Scarff

Sean Dyche, knattspyrnustjóri Everton, segir að félagið hafi gert allt sem í valdi sínu stóð til þess að fá leikmenn fyrir lok janúargluggans.

Everton auðnaðist ekki að fá einn einasta leikmann til liðs við sig í glugganum en Dyche sagði á blaðamannafundi í dag að ekkert hafi vantað upp á viljann til þess.

„Ég hef bara séð fólk leggja hart að sér, sérstaklega þegar kemur að því að finna leikmenn. Við lögðum afskaplega hart að okkur.

Ég get fullvissað ykkur um það þar sem ég var á staðnum að fylgjast með og var hluti af því.

Ég var að hringja í umboðsmenn. Við vorum að sinna allri undirbúningsvinnunni, fara í gegnum greiningar og gera allt sem við gátum til þess að skilgreina hvaða leikmenn gætu hjálpað til,“ sagði hann.

Tíminn var sannarlega knappur fyrir Dyche, sem var ráðinn stjóri Everton á mánudag og glugginn lokaði á þriðjudagskvöld.

mbl.is