Borgar United yfir 100 milljónir punda?

Victor Osimhen hefur raðað inn mörkunum á Ítalíu.
Victor Osimhen hefur raðað inn mörkunum á Ítalíu. AFP/Alberto Pizzoli

Nígeríski knattspyrnumaðurinn Victor Osimhen er sterklega orðaður við enska úrvalsdeildarfélagið Manchester United þessa dagana.

Osimhen, sem er 24 ára gamall, hefur farið á kostum með Napoli í ítölsku A-deildinni á tímabilinu en hann er markahæsti leikmaður deildarinnar með 16 mörk í 17 leikjum.

Hann gekk til liðs við Napoli sumarið 2020 frá Lille í Frakklandi en alls á hann að baki 83 leiki fyrir félagið í öllum keppnum þar sem hann hefur skorað 45 mörk.

Gazetta dello Sport greinir frá því í dag að forráðamenn United séu tilbúnir að borga klásúluna í samningi leikmannsins sem hljóðar upp á 107 milljónir punda.

Það myndi gera Osimhen að dýrasta leikmanni í sögu ensku úrvalsdeildarinnar en Chelsea borgaði rúmlega 105 milljónir punda fyrir Enzo Fernández á dögunum.

mbl.is