Miðjumaður Liverpool frá út tímabilið

Stefan Bajcetic í baráttu við Rúben Neves í leik Liverpool …
Stefan Bajcetic í baráttu við Rúben Neves í leik Liverpool og Úlfanna fyrr í mánuðinum. AFP/Paul Ellis

Spænski knattspyrnumaðurinn Stefan Bajcetic leikur ekki meira með Liverpool á yfirstandandi tímabili vegna meiðsla á læri.

Hinn 18 ára gamli Bajcetic hefur verið einn af fáum ljósum punktum á erfiðu tímabili og leikið vel á miðjunni þegar hann hefur fengið tækifæri til þess.

Alls hefur Bajcetic leikið 19 leiki í öllum keppnum og skorað eitt mark, en nú er ljóst að þeir verða ekki fleiri.

„Því miður hef ég orðið fyrir meiðslum sem munu halda mér frá keppni út tímabilið.

Mér þykir það mjög leitt að kveðja þetta tímabil, sem hefur verið mér magnað, en ég átta mig á því að þetta er hluti af knattspyrnunni og mun einungis styrkja mig líkamlega og andlega,“ skrifaði hann meðal annars á Instagram-aðgangi sínum í dag.

mbl.is