Klopp: Vá! Þeir gerðu það sem þeim sýndist

Jürgen Klopp svekktur eftir leik.
Jürgen Klopp svekktur eftir leik. AFP/Justin Tallis

Jürgen Klopp, knattspyrnustjóri Liverpool, viðurkenndi í viðtali við BT-sjónvarpsstöðina að betra liðið hafi unnið er liðið fékk skell gegn Manchester City á útivelli í dag, 1:4.

„Fyrri hálfleikur var eins og við mátti búast. City með yfirburði á meðan við áttum okkar augnablik. Við gerum vel þegar við áttum okkar augnablik, skoruðum glæsilegt mark og hefðum getað gert betur með aðra skyndisókn,“ sagði Klopp og hélt áfram:

„Við vildum verjast vel í seinni hálfleik, í stöðunni 1:1, en við lentum í vandræðum og völlurinn varð of stór. Þeir gerðu vel og skoruðu úr skyndisókn. Við hefðum svo átt að gera betur í þriðja markinu.“

Þjóðverjinn var þakklátur fyrir að City hafi slakað á eftir fjórða markið og ekki bætt við fleiri mörkum.

„Eftir það, vá! Við vorum að elta og þeir gerðu það sem þeim sýndist. Sem betur fer voru þeir ekki gráðugir í dag. Við þurfum að nota þennan leik og passa að þessir hlutir koma ekki fyrir aftur,“ sagði Klopp.  

mbl.is