„Gamli góði Niki missti af góðu tækifæri til að þegja“

Niki Lauda.
Niki Lauda. reuters

Ferrari kann gamla ökuþórnum sínum Niki Lauda litlar þakkir fyrir gagnrýni hans á liðsfyrirmæli Ferrari í þýska kappakstrinum í Hockenheim. Segir liðið hann hafa „missti af góðu tækifæri til að þegja“.

Í dálkinum „hrossahvísl“ á heimasíðu Ferrari sleppir höfundur beislum í gagnrýni sinni á Lauda og virðist svekktur yfir þeim ummælum hins opinmynnta ökuþórs, að Ferrari hafi haft „áhorfendur að fíflum“ með því að gera Felipe Massa að fórna sigri í kappakstrinum.

Fyrir það vill Lauda að íþróttaráð Alþjóða akstursíþróttasambandsins (FIA) refsi Ferrari hart.

„Eftir atburðina í Hockenheim hefur hræsnin farið sem sinueldur um formúlusviðið. Álitsgjafar, gamlir sem nýir, áfram um að trana sér fram. Þaggað hefur verið niður í mörgum en sumir halda þó áfram að fella dóma nauðugir viljugir.

Síðasta sendingin af því tagi kemur frá Austurríki, frá manni, sem hefur hengt upp hjálm sinn og aldrei látið eitt einasta tækifæri ónotað til að láta skoðanir sínar í ljós hægri og vinstri. Og það jafnvel þótt hann hafi oftar en ekki þurft að beita ýmsum tungubrögðum til að tala í takt við það sem þorranum finnst.

Í þetta sinn hefur þó gamli góði Niki misst af góðu tækifæri til að þegja, ekki síst vegna þess, að þegar hann var ökumaður Ferrari hentaði hin ætlaða ökumannastefna liðsins honum fullkomlega . . . Burtséð frá því má spyrja hvar hin siðferðilega heift hans hafi blundað liðin ár, á sama tíma og svo margir hafa gerst sekir um meiri og minni hræsnigjörðir?“ er spurt á heimasíðu Ferrari.

Lauda vann tvo af þremur heimsmeistaratitlum ökumanna sem liðsmaður Ferrari. Hann gagnrýndi liðið harkalega fyrir liðsfyrirmælin í Hockenheim; sagði þau hafa verið eins og rennblauta tusku framan í unnendur íþróttarinnar og blygðunarlaust brot á reglum. Annað hvort ætti að breyta reglunum eða allir að fara eftir þeim. Nefndi hann framgöngu Red Bull sem dæmi um hvað betra væri fyrir formúluna og til þess fallið að draga áhorfendur að greininni. Framferði Ferrari væri dæmi um hið gagnstæða og ekki af hinu góða.

Lauda (t.v.) er skýrandi í útsendingum RTL-stöðvarinnar þýsku.
Lauda (t.v.) er skýrandi í útsendingum RTL-stöðvarinnar þýsku. mbl.is/Ágúst Ásgeirsson
Eflaust er Luca di Montezemolo, yfirmaður Ferrari, ekki eins brosmildur ...
Eflaust er Luca di Montezemolo, yfirmaður Ferrari, ekki eins brosmildur nú í garð og Niki Lauda og hér. ap
mbl.is

Bloggað um fréttina