Grosjean fljótastur á lokadeginum

Romain Grosjean á ferð á Lotusnum í Katalóníuhrignum í Barcelona …
Romain Grosjean á ferð á Lotusnum í Katalóníuhrignum í Barcelona í dag. mbl.is/afp

Romain Grosjean hjá Lotus setti hraðasta hring dagsins við bílprófanir formúluliðanna í Barcelona. Er það í þriðja sinn á fjórum dögum sem Lotusbíllinn trónir á toppi lista yfir hröðustu hringi ökumanna.

Grosjean setti besta tímann síðla dags á ofurmjúkum dekkjum Pirelli. Æfingarnar í dag einkenndust af miklum truflunum. Alls var aksturinn stöðvaður sex sinnum með rauðum flöggum og alvarlegasta atvikið sem olli því var útafakstur Fernando Alonso hjá McLaren sem skall á öryggisvegg rétt fyrir hádegishlé.

Alonso var fluttur með sjúkraþyrlu undir læknishendur í öryggisskyni en mun hafa sloppið ómeiddur.

Besti hringur Grosjean mædist 1:24,067 mínútur og næsthraðast ók Nico Rosberg há Mercedes sem var 0,254 sekúndum lengur með sinn besta hring - á harðari dekkjum en Grosjean.

Daniil Kvyat hjá Red Bull átti þriðja besta hringinn var samt 0,6 sekúndum lengur í förum en Rosberg. Var hann 15 þúsundustu úr sekúndu fljótari en Felipe Nasr hjá Sauber sem glímdi við tæknigalla og bilanir.

Valtteri Bottas varði deginum að mestu í langar aksturslotur á hörðum dekkjum en setti mjúk undir í lokin og hleypti Williamsbílnum upp í fimmta sæti með því, ók á 1:25,345 mín.

Carlos Sainz Jr. hafði gengið vel framan af en festi Toro Rosso bílinn síðar í malargryfju og tapaði vegna þess miklum æfingatíma seinni partinn.

Nico Hülkenberg tók við akstri 2014-bíls Force India en náði ekki ýkja mörgum hringjum þar sem kviknaði í bílnum eftir 36 hringi. Endaði hann í áttunda sæti, rétt á eftir Sebastian Vettel hjá Ferrari og á undan Alonso sem hafði aðeins náð 20 hringjum er æfingu hans lauk með fyrrgreindum hætti.

Romain Grosjean á ferð á Lotusnum í Katalóníuhrignum í Barcelona …
Romain Grosjean á ferð á Lotusnum í Katalóníuhrignum í Barcelona í dag. mbl.is/afp
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert