Með uppfærða vél til Barcelona

Daniel Ricciardo sýnir aksturskúnstir á Red Bull bílnum við ráðhús …
Daniel Ricciardo sýnir aksturskúnstir á Red Bull bílnum við ráðhús Vínarborgar í Austurríki. mbl.is/afp

Renault hefur staðfest að það komi til leiks í Spánarkappakstrinum með uppfærða útgáfu af keppnisvélinni sem það leggur  Red Bull og Toro Rosso til.

Ending vélanna hefur ekki verið upp á það besta það sem af er vertíð og hefur það þjakað liðin tvö nánast að staðaldri.

Birtast vandræðin meðal annars í því að Daniel Ricciardo mætir til leiks í Barcelona um helgina með fjórðu vélina á árinu. Þar með er hann búinn að nýta vélakvóta sinn á árinu því hver ökumaður hefur úr aðeins fjórum vélum að spila á allri vertíðinni.

Að vísu þykir útlit fyrir að kvótinn verði aukinn um eina vél, í fimm.

„Þriggja vikna hvíld frá síðasta móti hefur gefið okkur tækifæri til að grannskoða öll vélargögn ársins og leita úrbóta,“ segir keppnisstjóri Renault, Rémi Taffin. „Við höfum verið á fullu í því að reyna útiloka að sömu bilanir endurtaki sig og komum með breytta útgáfu af vélinni til keppni helgarinnar. Hún ætti að bæta endinguna og aksturseiginleika hennar.“


 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert