Vettel aftur fyrstur og akstur lengist

Sebastian Vettel hjá Ferrari ók aftur hraðast í Barcelona í dag, á öðrum degi bílprófana formúluliðanna. Bætti hann brautartímann frá í gær um tvær sekúndur og ók mun lengra, eða langleiðina í 600 km.

Vette ók 126 hringi í dag, en mun lengra ók Niko Rosberg hjá Mercedes, eða 172 hringi sem svarar til 791 km.

Besti hringur Vettels mældist 1:22,810 mínútur og var næsti maður, Daniel Ricciardo á Red Bull, 0,7 sekúndum lengur í förum, ók á 1:23,525 mín og lagði að baki 112 hringi. Þriðja besta hringinn átti svo Sergio Perez á Force India, ók á 1:23,650 mín og alls 101 hring.

Rosberg átti svo fjórða besta hringinn, ók hann á 1:24,867 mínútum, eða meira en sekúndu á eftir Perez. 

Stór þáttur í mun hraðari hringjum hjá Vettel í dag var að hann var með þeim fyrstu sem fékk að spreyta sig á nýjum ofurmjúkum dekkjum frá Pirelli. Þegar nokkrar mínútur voru eftir af æfingunni bilaði Ferrarifákur Vettels í þriðju beygju og þar við sat.

Renault var eina liðið sem ekki tókst að klára keppnislengd í dag en það hætti akstri upp úr hádegi vegna bilunar. Hafði Joylon Palmer þá ekið alls 42 hringi, fimm fleira en í gær, og náð best 1:26,189 mín á hring. Aðeins Max Verstappen hjá Toro Rosso ók hægar, eða á 1:26,539 en hann kláraði 121 hring.

Marcus Ericsson  átti fimmta besta tímann á Saubernum, ók á 1:25,237  mín. og alls 108 hringi. Þremur tíundu úr sekúndu lengur var Esteban Gutierrez  hjá Haas á 1:25,524  en hann náði 79 hringjum.

Valteri Bottas hjá Williams endaði í sjöunda sæti á lista yfir hröðustu hringinn með 1:25,648 mín. sem besta hring af alls 134. Í áttunda sæti varð Peter Wehrlein hjá Manor með 1:25,925 mín. á  71 hring.

Í níunda og þriðja neðsta sætinu varð svo Fernando Alonso hjá McLaren. Besti tími hans var   1:26,082 mín., en athygli vekur að hann ók alls 119 eða 547 km, sem er örugglega endingarmet á hinum Honda-knúna bíl liðsins sem var einstaklega endingarslappur í fyrra.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert