Tvöfaldur Ferrarisigur

Sebastian Vettel var í þessu að vinna ungverska kappaksturinn og liðsfélagi hans hjá Ferrari, Kimi Räikkönen, varð rétt á eftir í öðru sæti. Mikil spenna var síðustu 20 hringina eftir að Mercedes gerði Valtteri Bottast að víkja fyrir Lewis Hamilton en hann fékk þó ekki rofið skarð í Ferrarimúrinn.

Lewis sýndi svo mikið drengskaparbragð er hann þakkaði Bottas fyrir liðveisluna og hleypti honum fram úr sér undir lok síðasta hrings.

Þetta er í annað sinn á árinu sem Ferrari fagnar tvöfalt, fyrra tilvikið átti sér stað í Mónakókappakstrinum.

Vettel hóf keppni  af ráspól og hélt fyrsta sætinu en um miðjan kappaksturinn kvartaði hann undan skekkju í stýrishjólinu sem olli því að bíllinn hafði tilhneigingu til að leita til vinstri. Var honum ráðlagt að aka aldrei upp á beygjubríkurnar og hélt hann forystunni út í gegn.

Um tíma nálguðust Mercedesbílarnir Ferrarifákana tvo hratt og Räikkönen gerðist órólegur og gaf til kynna í talstöðinni að með því að hleypa sér ekki fram úr Vettel væri tekin áhætta á að Mercedes færi með sigurinn af hólmi.  Að ósk Hamiltons var Bottas beðinn að hleypa honum fram úr svo hann gæti lagt til atlögu við Mercedes. Komst hann verulega nærri Räikkönen en aldrei alveg nógu langt til að prófa framúrakstur. Var hann þá enda búinn að slíta dekkjum sínum full mikið og átti því aldrei möguleika. Galt hann Bottas svo greiðan með því að hægja ferðina og hleypa honum fram úr þótt Max Verstappen væri í skottinu á Bottas, í fimmta sæti.

Besti árangur McLaren

Fernando Alonso hjá McLaren lauk keppni í sjötta sæti og á sama hring og fremstu menn. Er það langbesti árangur McLaren sem var með aðeins tvö stig, með níunda sætinu í Evrópukappakstrinum í Bakú. McLaren hafði ástæðu til að fagna því liðsfélagi Alonso, Stoffel Vandoorne, kláraði einnig í stigasæti, varð í tíunda sæti og vann þar með sitt fyrsta stig á vertíðinni.

Í annarri beygju eftir ræsingu varð sjaldgæft óhapp þar sem Verstappen klessti inn í bíl liðsfélaga síns, Daniels Ricciardo, sem varð að hætta vegna bíltjóns. Var Verstappen refsað þungt, með 10 sekúndna akstursvíti, sem þýðir að hann varð valdur að óþarfa árekstri.  Ricciardo var ekki skemmt en vegna brottfalls hans er hann aðeins einu stigi á undan Räikkönen í keppninni um heimsmeistaratitil ökumanna, en í henni eru þeir í fjórða og fimmta sæti.

Vettel jók forystu sína í titilkeppninni úr einu stigi (177:176) í 14, er með 202 stig gegn 188 stigum Hamiltons. Bottas er þriðji með 169 stig, Ricciardo 117 og Räikkönen 116. Verstappen er svo sjötti með 67 stig, Sergio Perez 56, Esteban Ocon með 45, Carlos Sainz með 35 og Hülkenberg er í tíunda sæti með 26 stig.

Með sínum tvöfalda sigri minnkaði Ferrari forskot Mercedes en staðan milli þeirra í liðakeppninni er 357:318. Red Bull er í þriðja sæti með 184 stig og Force India í fjórða með 101 stig. Þá gerðist það að McLaren lyfti sér úr botnsætinu og er nú í þvíæ níunda með 11 stig en á botninum er Sauber með fimm stig.    

mbl.is