Hamilton fljótastur á fjórða degi

Lewis Hamilton á Mercedes ók hraðast allra á fjórða og síðasta degi fyrstu bílprófanalotu vetrarins. Veðrið hamlaði ekki akstri eins og á öðrum og þriðja degi.

Vegna rigingar og snjókomu hafði Hamilton aðeins náð 25 hringjum í Barcelona þegar fjórði dagurinn rann upp. Bættust 69 við á leið til besta tíma, en hraðasti hringur hans mældist 1:19,333 mínútur. Er það besti brautartími daganna fjögurra.

„Ég er ánægður með daginn, það var gott að fá tilfinningu fyrir dekkjunum upphitunarþörfinni og almennt átta sig betur á nýja bílnum,“ sagði Hamilton. Hann sagðist ekkert fylgjast með gangi annarra ökumanna á æfingunum í Barcelona.

Belgíski ökumaðurinn Stoffel Vandoorne hjá McLaren setti næstbesta hring dagsins en hann lagði að baki 110 hringi. Ók hann á mýkstu dekkjagerðinni er hann setti sinn besta hring, 1:19,854 mín.

Liðsfélagi hans Fernando Alonso ók svo 51 hring á bílnum og setti fimmta besta tímann, 1:20,929 mín. Eru hagir McLaren gjörólíkar því nú sem var í fyrra.

Franski ökumaðurinn Pierre Gasly á Toro Rosso (best 1:22,134) ók manna mest eða alls 147 hringi. Er bíll hans knúinn Honda-vél og ending hennar á þessum eina degi er meiri en alla æfingadagna í fyrra samanlagt.

Sebastian Vettel á Ferrari ók 120 hringi og setti þriðja besta hringinn, 1:20,241 mín. „Ég vildi hafa getað ekið meira hér, en úr því má bæta í næstu viku. Ættu línur að fara að skýrast þá,“ sagði hann. Gat hann ekki nýtt tíman til fulls þar sem vélvirkjar fundu eitthvað athugavert við bílinn og tók nokkra stund að ráða bót á því.

Sergio Perez ók nýjum Force India í fyrsta sinn. Setti hann áttunda besta hringinn, 1:21,973.

Daninn Kevin Magnussen á Haas átti fjórða besta tímann, 1:20,317 mín. Carlos Sainz á Renault þann sjötta (1:20,940),  Lance Stroll á Williams þann sjöunda (1:21.142), Max Verstappen á Red Bull þann níunda (1:22,058), Nico Hülkenberg á Renault þann ellefa (1:22,507), Valtteri Bottas á Mercedes þann tólfta (1:22,789), Charles Leclerc á Toro Rosso þann þrettánda (1:22808), Marcus Ericsson á Sauber átti fjórtánda besta hringinn (1:23,825) og loks setti Sergei Sírotkín á Williams fimmtánda besta tímann, 1:31,979 mín.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert