Ánægður með þolið en vill meiri hraða

Vettel kemur inn til dekkjaskipta í Barcelona.
Vettel kemur inn til dekkjaskipta í Barcelona. AFP

Sebastian Vettel hafði var sett brautarmet í Barcelona í dag er hann sagði að Ferrari þyrfti að geta náð meira afli út úr vél keppnisfáksins.

Vettel ók alls 185 hringi eða tæpa 900 kílómetra. Var hann ánægður með endingu og úthald bílsins en kvaðst hafa þörf fyrir meiri hraða.

„Hvað áreiðanleika varðar þá er bíllinn klettsterkur. Engin vandamál í akstrinum eða eitthvað til að hafa áhyggjur af og því tek ég  ofan fyrir mannskapnum í bílsmiðjunni,“ sagði Vettel. 

Hann kvaðst ekki gera sér grein fyrir hvar Ferraribíllinn stæði í samanburði við bíla annarra liða, eðli æfinga væri svo misjafnt milli liða. Í morgun ók Vettel fáa hringi í einu en líkti svo eftir kappakstri með dekkjastoppum eftir hádegi. Að því búnu ók hann í löngum lotum sem eftir var dagsins.

Vettel hefur þar með lokið reynsluakstri fyrir keppnistímabilið en Kimi Raikkonen tekur við akstrinum á morgun, lokadeginum. Að því búnu taka liðin saman sitt hafurtask og halda til Ástralíu, til fyrsta móts komandi keppnistíðar.


 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert