Bottas gramdist liðsstjórinn

Valtteri Bottas kunni ekki að meta yfirlýsingar liðsstjórans Toto Wolff við lok ungverska kappakstursins að hann væri ökumaður númer tvö hjá Mercedes  

Hrósaði Wolf „vængmanni Hamiltons“ fyrir hversu vel og lengi honum tókst að halda Sebastian Vettel og Kimi Räikkönen fyrir aftan sig og koma með því í  veg fyrir að þeir gætu lagt til atlögu við Hamilton og hugsanlega ógnað sigri hans í Búdapest.

Bottas sagði við sjónvarpsmenn að það væri særandi að heyra slíkar yfirlýsingar. Gaf hann til kynna að hann myndi óska eftir fundi með Wolff til að fara yfir málið en honum hafi hingað til verið tjáð að þeir Hamilton stæðu jafnfætis innan liðsins.

Nú væri hins vegar dregin upp sú mynd að hann væri í aukahlutverki og ætti að sýna Hamilton undirgefni. Fyrir viku var honum skipað að hætta tilraunum til að taka fram úr Hamilton í Hockenhei þar sem hann freistaði að komast fram úr á lokahringjunum.

Wolf áttaði sig síðar á afleiðingum orða sinna og reyndi að minnka tjónið. „Úrslit kappakstursins voru súrsæt því Valtteri hefði verðskuldað sæti á verðlaunapalli því hann var stórkostlegur vængmaður,“ sagði Wolff.

Wolff reyndi að varpa fyrir róða ummælum þess efnis að Mercedesliðið einbeitti sér nú alfarið að Hamilton og nefndi aftur orðið vængmaður, en slíkt heiti hafa flugmenn orrustusveita sem hafa því hlutverki fyrst og fremst að gegna að verja foringja sinn sem fremstur fer. 

Wolff sagði að ummæli sín hafi ranglega verið blásin upp úr öllu valdi. „Start úr öðru sæti í dag og annað sætið eftir fyrsta hring var hin fullkomna vængmanns frammistaða - og ég meina það þá ekki með tilliti til keppninar um titil ökumanna því hjá okkur er ennginn númer eitt og enginn númer tvö. Kappaksturinn lagðist bara svona fyrir hann.“

mbl.is