Félagarnir aftur fljótastir

Max Verstappen á Red Bull ók einnig hraðast á seinni æfingu dagsins í Mexíkó sem  þeirri fyrri. Þá varð liðsfélagi hans Daniel Ricciardo næstfljótastur, eins og í morgun.

Besti hringur Hamilton mældist 1:16,720 mínútur sem er nánast sami tími og í morgun, en þá fór hann hringinn á 1:16.656. Ricciardo var svo 0,153 sekúndum á eftir en rúm sekúnda var í þriðja mann, Carlos Sainz á Renault. 

Bjartsýni Verstappen á góðan árangur um helgina hefur hugsanlega minnkað ögn eftir að hann varð að leggja bílnum við brautarkant undir lok æfingarinnar. Hafði hann þorrið að afli, og virtist um svipaða bilun að ræða og hjá Ricciardo í bandaríska kappakstrinum í Austin sl. sunnudag.

Toppliðin áttu erfitt uppdráttar á seinni æfingunni og náði Lewis Hamilton á Mercedes til að mynda aðeins sjöunda besta tímanum og var rúmlega 1,4 sekúndum lengur í förum en Verstappen.

Í sætum fjögur til tíu - í þessari röð - urðu annars Sebastian Vettel á Ferrari, Nico Hülkenberg á Renault, Brendon Hartley á Toro Rosso, Hamilton, Kimi Räikkönen á Ferrari, Valtteri Bottas á Mercedes og heimamaðurinn Sergio Perez á Force India.

Dekkjaslit var áfram mikið og hrundu ofurmjúku dekkin eftir aðeins nokkra hringi. Þau eru mun hraðskreiðari en hörðu dekkin sem í boði eru. Standa toppliðin frammi fyrir því torræði að ákveða hvort þau freisti að komast í lokalotu tímatökunnar á harðari dekkjunum, eða þeim mýkri. Með því myndu þau standa verr hvað hraða varðar gagnvart liðunum sem á eftir kæmu sem gæti reynst vandamál á fyrsta hring. Þau nytu hins vegar betri endingar takist þeim að halda öðrum fyrir aftan sig fyrstu hringina.

Lewis Hamilton gæti landað heimsmeistaratitlinum á sunnudagskvöld. Dugar honum að verða í sjöunda sæti í mark þótt Vettell sigraði; titillinn yrði þá hans í fimmta sinn. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert