Vettel og Leclerc fremstir

Vettel á æfingunni í Spa-Francorchamps.
Vettel á æfingunni í Spa-Francorchamps. AFP

Sebastian Vettel á Ferrari ók hraðast á fyrstu æfingu keppnishelgarinnar í Spa Francorchamps en þar fer belgíski formúlu-1 kappaksturinn fram um helgina.

Vettel var 0,2 sekúndum fljótari með hringinn en liðsfélagi hans Charles Leclerc sem ók næsthraðast.

Ferrari bindur vonir við að geta farið með sigur af hólmi í Spa á sunnudag en ár er liðið frá síðasta mótssigri liðsins.

Lewis Hamilton átti í erfiðleikum með bensínfetil Mercedesbílsins og dvaldi  langdvölum inni í bílskúr. Komst hann aftur út í brautina undir lok æfingarinnar og endaði með sjötta besta tímann, en 1,3 sekúndur á eftir Vettel. Liðsfélagi hans Valtteri Bottas var einu sæti framar.

Bílar Red Bull urðu í þriðja og fjórða sæti á lista yfir hröðustu hringi. Max Verstappen varð aðeins 0,1 sekúndu fljótari með hringinn en nýr liðsfélagi hans,  Alexander Albon.

Í sætum sjö til tíu - í þessari röð - urðu Lance Stroll á Racing Point, Daniel Ricciardo á Renault,  Sergio Peres á Racing Point og Carlos Sainz á McLaren.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert