Leclerc fljótastur - Hamilton klessir

Tjónaður Mercedesbíll Lewis Hamilton hífður á brott eftir ákeyrslu á …
Tjónaður Mercedesbíll Lewis Hamilton hífður á brott eftir ákeyrslu á öryggisvegg í Spa. AFP

Charles Leclerc á Ferrari ók hraðast  á lokaæfingunni fyrir tímatökuna í Spa Francorchamps en það bar til tíðinda á henni að Lewis Hamilton klessti Mercedesbíl sinn.

Leclerc ók einnig hraðast á seinni æfingu gærdagsins en í morgun varð hann rúmlega 0,4 sekúndum á undan Valtteri Bottas á Mercedes og liðsfélaga sínum Sebastian Vettel. Hefur Ferraribíll þar með verið fljótastur á öllum æfingunum þremur því Vettel sat í fyrsta sæti lista yfir hröðustu hringi eftir fyrstu æfinguna í Spa.

Tæknimenn Mercedes munu keppa við klukkuna um að koma bíl Hamilton aftur í ökuhæft ástand áður en tímatakan hefst. Rann hann út af brautinni í þrettándu beygju hringsins og skall á öryggisvegg með þeim afleiðingum að fjöðrunarbúnaður að framan eyðilagðist. Setti hann sjöunda besta tíma æfingarinnar, nærri 1,4 sekúndum á eftir Leclerc.

Eftir voru 25 mínútur af æfingunni þegar óhappið átti sér stað sem með öðrum orðum þýðir að liðsmenn hafa tæplega tvær og hálfa klukkustund til viðgerða á bíl Hamiltons.

Max Verstappen á Red Bull átti erfiða tíma á æfingunni en bremsurnar munu hafa verið að svíkja hann. Var hann sekúndu lengur með hringinn en Leclerc og varð nærri hálfri sekúndu á eftir sínum fyrri liðsfélaga, Daniel Ricciardo á Renault, sem setti fjórða besta tíma æfingarinnar.. 

Sergio Perez á Racing Poiint setti gamla vél í bíl sinn fyrir æfinguna í morgun og reyndist hú traustari en nýrri vél sem hann notaði í gær. Endaði hann í sjötta sæti.

Ökumenn Alfa Romeo létu að sér kveða en Kimi Räikkönen varð áttundi og Antonio GIovinazzi níundi. Pierre Gasly á Toro Rosso átti svo tíunda besta tímann.

Charles Leclerc á ferð í Spa.
Charles Leclerc á ferð í Spa. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert