Leclerc fljótastur á báðum æfingum

Charles Leclerc á seinni æfingunni í Monza í dag.
Charles Leclerc á seinni æfingunni í Monza í dag. AFP

Charles Leclerc hjá Ferrari ók hraðast á báðum æfingum dagsins í Monza, en þar fer Ítalíukappaksturinn fram á sunnudag. Rigndi um skeið á báðum æfingum og hafði það sín áhrif.

Leclerc var aðeins 68 þúsundum úr sekúndu fljótari en Lewis Hamilton á seinni æfingu en topptími Ferrarimannsins mældist 1:20,978 mínútur. Á fyrri æfingu var hraðasti hringur hans ekinn á 1:27,905, sem var 0,3 sekúndum betri tími en hjá Carlos Sainz á McLaren sem ók næsthraðast.

Leclerc náði sínum besta tíma síðdegis, rétt áður en skúrir byrjuðu að létta á sér yfir Monca. Ökumenn létu vætuna ekki halda aftur af sér og óku stíft æfingarnar út í gegn í skyni gagnaöflunar.

Þá æfðu ökumenn Mercedes áhrif kjölsogs á getu bílanna með tilliti til tímatöku morgundagsins. Skiptust þeir á að toga hvorn annan um brautina og búast má við slíkri taktík í tímatökunum þar sem þeir verða að beita öllum tiltækum ráðum til að standa í hárinu á Ferraribílunum sem taldir eru verða erfiðir um helgina og er frammistaða Leclerc í dag vísbending þar um.

Sebastian Vettel á Ferrari varð þriðji á seinni æfingunni, 0,201 sekúndum á eftir liðsfélaga sínum. Valtteri Bottas á Mercedes átti fjórða besta hringin og mældist fljótastur í hraðagildrunni sem hann fór í gegnum á 340 km hraða.

Í sætum fjögur til tíu á lista yfir hröðustu hringi - í þessari röð - urðu Max Verstappen og Alexander Albon á Red Bull, Pierre Gasly á Toro Rosso, Romain Grosjean á Haas, Daniel Ricciardo á Renault og Daniil Kvyat á Toro Rosso.

Á fyrri æfingunni var Lando Norris á Mclaren þriðji fljótasti en hann átti stundum erfitt með að hemja bíl sinn á rakri brautinni. Hamilton varð fjórði, Albon fimmti, Kvyat sjötti, Verstappen sjöundi, Vettel áttundi, Bottas níundi og Gasly tíundi,  

Charles Leclerc á seinni æfingunni í Monza í dag.
Charles Leclerc á seinni æfingunni í Monza í dag. AFP
Charles Leclerc á seinni æfingunni í Monza í dag.
Charles Leclerc á seinni æfingunni í Monza í dag. AFP
Þreytulegt er andlit Charles Leclerc við lok seinni æfingar dagsins …
Þreytulegt er andlit Charles Leclerc við lok seinni æfingar dagsins í Monza. AFP
mbl.is