Verða Forlán og Ingvar samherjar?

Diego Forlán.
Diego Forlán. AFP

Úrúgvæski sóknarmaðurinn Diego Forlán gæti orðið samherji markvarðarins Ingvars Jónssonar hjá norska úrvalsdeildarliðinu Sandefjord.

Norskir fjölmiðlar greina frá því að Sandefjord vinni í því að reyna að fá Forlán til að leika með liðinu fram til haustins en liðið í er 11. sæti í norsku deildinni.

Forlán, sem er 38 ára gamall, hefur víða komið við á ferli sínum. Hann hefur meðal annars leiki með Manchester United, Villareal, Atlético Madrid og Inter Mílanó. Síðast lék með liði Mumbai City í indversku ofurdeildinni í fyrra en hann gerði þriggja mánaða samning við félagið í fyrra.

Forlán lék 112 leiki með úrúgvæska landsliðinu en hann lék sinn síðasta leik með því árið 2014. Hann skoraði 36 mörk með landsliðinu. Á HM 2010 var hann útnefndur besti leikmaður mótsins og varð markahæstur með 5 mörk ásamt þremur öðrum leikmönnum.

mbl.is