Danir á HM en gerðu Íslandi grikk

Christian Eriksen (10) skoraði þrjú glæsileg mörk og fagnar einu ...
Christian Eriksen (10) skoraði þrjú glæsileg mörk og fagnar einu þeirra í kvöld ásamt Thomas Delaney. AFP

Danir tryggðu sér í kvöld farseðilinn á heimsmeistaramótið í knattspyrnu í Rússlandi næsta sumar eftir stórsigur á Írlandi í síðari umspilsleik þjóðanna. Christian Eriksen skoraði þrennu í 5:1-sigri Dana, sem kemur okkur Íslendingum þó frekar illa.

Byrjum hins vegar á leiknum í Dublin í kvöld sem var frábær skemmtun, en fyrri viðureign liðanna í Danmörku var markalaus. Írar komust yfir strax á 6. mínútu leiksins með marki Shane Duffy. Danir jöfnuðu á 29. mínútu með skrautlegu marki sem skráist sem sjálfsmark á Cyrus Christie, en síðan var röðin komin að Eriksen.

Hann kom Dönum yfir á 32. mínútu eftir frábæra skyndisókn, en hann skaut þá viðstöðulausu skoti utan teigs í þverslá og inn. Staðan 2:1 fyrir Dönum í hálfleik, en Eriksen var hins vegar ekki hættur. Á 63. mínútu skoraði hann þriðja mark Dana með öðru glæsilegu skoti utan teigs, og tíu mínútum síðar fullkomnaði hann þrennuna úr teignum eftir skelfileg mistök í vörn Írlands. Hann hefur nú skorað 10 mörk í 12 leikjum í undankeppni HM 2018.

Danir innsigluðu svo stórsigur sinn og farseðilinn á HM á lokamínútunni úr vítaspyrnu eftir að brotið var á Nicklas Bendtner. Hann fór sjálfur á punktinn og skoraði, lokatölur 5:1.

Hvað okkur Íslendinga varðar þá þýðir sigurinn það að Ísland á ekki lengur möguleika á því að verða í öðrum styrkleikaflokki þegar dregið verður í riðla fyrir keppnina í byrjun desember. Ísland verður þar af leiðandi í þriðja styrkleikaflokki, sem þýðir að líklegra er að fleiri sterkari þjóðir verði með Íslandi í riðli.

mbl.is