Rúnar lánaður til St. Gallen?

Rúnar Már Sigurjónsson í leik með Grasshoppers gegn KR fyrir …
Rúnar Már Sigurjónsson í leik með Grasshoppers gegn KR fyrir hálfu öðru ári. Ljósmynd/Andy Mueller/freshfocus

Rúnar Már Sigurjónsson, landsliðsmaður í knattspyrnu, verður lánaður frá Grasshoppers til St. Gallen en bæði liðin leika í svissnesku úrvalsdeildinni.

Þetta fullyrðir netútgáfa Sundsvall Tidning í Svíþjóð en Rúnar lék með Sundsvall áður en hann fór til Grasshoppers.

Þá segir ST að ekkert verði af því að Rúnar fari til Malmö í Svíþjóð en hann hefur að undanförnu verið sterklega orðaður við sænsku meistarana. Rúnar hafi hafnað boði um að fara til Malmö og vilji leika áfram í Sviss.

St. Gallen er í 4. sætinu í Sviss með 27 stig eftir 19 umferðir, þremur stigum fyrir ofan Grasshoppers sem er í 6. sæti.

Rúnar kom til Grasshoppers frá Sundsvall sumarið 2016 og hefur verið í stóru hlutverki hjá liðinu en á síðasta tímabili skoraði hann sjö mörk fyrir liðið í 31 leik í deildinni, ásamt því að skora tvö mörk í Evrópuleikjum. Í vetur hefur hann misst nokkra leiki úr vegna meiðsla en hefur spilað 12 af 19 leikjum í deildinni og skorað þrjú mörk.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert