Sandra María skoraði tvö í risasigri

Sandra María Jessen fagnar marki með Slavia Prag.
Sandra María Jessen fagnar marki með Slavia Prag. Ljósmynd/Slavia Prag

Sandra María Jessen, landsliðskona í knattspyrnu, var í stóru hlutverki hjá tékkneska meistaraliðinu Slavia Prag þegar liðið vann gríðarlega öruggan útisigur gegn Horní Herspice, 10:0, í deildarkeppninni þar í landi í dag.

Sandra María var í byrjunarliði Slavia í leiknum og skoraði tvö mörk í fyrri hálfleik, það fyrra á 14. mínútu og það síðara á 32. mínútu, en Slavia var 5:0 yfir í hálfleik. Yfirburðirnir héldu áfram eftir hlé þar sem Slavia skoraði fimm mörk til viðbótar og vann 10:0. Slavia er á toppnum með 34 stig af 36 mögulegum þegar þremur leikjum er ólokið af deildarkeppninni.

Sandra María er á láni frá Þór/​KA fram á vor. Þetta var annar deildarleikur Söndru með liðinu og fyrstu deildarmörk hennar, en hún skoraði í fyrsta keppnisleik sínum með Slavia í tékknesku bikarkeppninni í febrúar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert