Síðasta tækifæri Messi og félaga

Lionel Messi.
Lionel Messi. AFP

Lionel Messi gefur það til kynna að hann geti sagt skilið við argentínska landsliðið í knattspyrnu eftir heimsmeistaramótið í Rússlandi í sumar.

Messi og félagar hans mæta Íslendingum í fyrsta leiknum á HM í Moskvu þann 16. júní en þetta verður fjórða úrslitakeppni HM sem Messi tekur þátt í.

„Við höfum farið í úrslit þrisvar sinnum en okkur hefur ekki tekist að vinna. Augljóslega veltur framtíðin á úrslitunum á mótinu og tilfinningu hópsins. Það hafa verið margir hlutir sagðir um okkur og margar spurningar bornar fram og við vinnum ekki HM í sumar þá fáum við ekki annað tækifæri.

Það er gott að hitta fólk sem óskar mér og liðinu góðs gengis á HM og það eru margir sem vilja sjá mig vinna heimsmeistaratitilinn,“ segir hinn magnaði Messi, sem hefur farið á kostum með liði Barcelona á leiktíðinni.

Argentína tapaði fyrir Þýskalandi í úrslitaleiknum á HM í Brasilíu fyrir fjórum árum og tapaði úrslitaleikjunum í Suður-Ameríkukeppninni 2015 og 2016.

 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert