Eigum bara eftir að verða betri

Unai Emery var ósáttur með að fá á sig tvö …
Unai Emery var ósáttur með að fá á sig tvö mörk á lokamínútum leiksins í kvöld. AFP

Unai Emery, knattspyrnustjóri Arsenal, var nokkuð sáttur með sína menn eftir 4:2-sigur liðsins gegn úkraínska liðinu Vorskla í E-riðli Evrópudeildar UEFA á Emirates-vellinum í kvöld en Spánverjinn var þó ósáttur með að fá á sig tvö mörk undir lok leiksins.

„Það var mjög svekkjandi að fá á sig tvö mörk undir restina, sérstaklega þar sem ég sá miklar framfarir á mínu liði. Við þurfum að gera betur á lokamínútunum, það er klárt mál. Þegar þú ert að vinna 4:0 á heimavelli viltu halda áfram að þjarma að andstæðingnum og skora fleiri mörk, ekki fá á þig mörk. Það var hins vegar afar mikilvægt fyrir okkur að byrja þessa keppni á sigri.“

„Það voru margir leikmenn sem fengu tækifæri í dag og það er jákvætt. Þeir fengu aukið sjálfstraust sem er mikilvægt því það eru margir leikir fram undan hjá okkur. Við förum í hvern einasta leik til þess að vinna og það er mikilvægt að dreifa álaginu, jafnvel þótt sumir leikmenn séu betri þegar þeir spila reglulega.

„Ég er ánægður með frammistöðu liðsins í kvöld en það er alveg á hreinu að við getum bætt okkur mikið og við eigum bara eftir að verða betri,“ sagði stjórinn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert