Liverpool-menn áberandi í stórsigri Hollands

Hollendingar fögnuðu grimmt í kvöld.
Hollendingar fögnuðu grimmt í kvöld. AFP

Holland vann afar góðan 3:0-sigur á Þýskalandi í A-deild Þjóðadeildarinnar í fótbolta í Amsterdam í kvöld. Hollendingar eru nú með þrjú stig og í öðru sæti 1. riðils, einu stigi á eftir Frökkum en Þjóðverjar eru á botninum með aðeins eitt stig. 

Virgil van Dijk skoraði eina mark fyrri hálfleiks með skalla eftir hornspyrnu á 30. mínútu og var staðan í leikhléi 1:0. Memphis Depay og Georginio Wijnaldum bættu svo við mörkum á síðustu fjórum mínútunum og gulltryggðu góðan sigur. 

Í B-deildinni fóru fram tveir leikir í dag. Annars vegar vann Tékkland 2:1-sigur á grönnum sínum í Slóvakíu á útivelli í 1. riðli og Írar og Danir gerðu markalaust jafntefli í Dublin í 4. riðli. 

Lærisveinar Lars Lagerbäck í norska landsliðinu unnu 1:0-heimasigur á Slóveníu í riðli 3 í C-deildinni og í sama riðli vann Búlgaría 2:1-sigur á Kýpur. 

Í D-deildinni hafði Georgía betur á móti Andorra, 3:0 og Lettland og Kasakstan gerðu 1:1-jafntefli í 1. riðli. Í 4. riðli vann Gíbraltar sinn fyrsta keppnisleik í sögunni er liðið lagði Armena af velli á útivelli, 1:0 og Makedónía vann Liechtenstein, 4:1. 

Lærisveinar Lars Lagerbäck höfðu betur gegn Slóveníu.
Lærisveinar Lars Lagerbäck höfðu betur gegn Slóveníu. AFP
mbl.is