Óvænt fundarboð - Tekur Wenger við?

Arsene Wenger.
Arsene Wenger. AFP

Þýska meistaraliðið Bayern München hefur boðað óvænt til fréttamannafundar fyrir hádegi og ríkir óvissa um fundarefnið en Bæjarar hafa farið illa af stað á tímabilinu og hafa ekki náð að landa sigri í síðustu fjórum leikjum.

Sögusagnir eru í gangi um að á fréttamannafundinum verði Arsene Wenger, fyrrverandi knattspyrnustjóri Arsenal, kynntur til leiks sem nýr þjálfari liðsins og muni taka við af Króatanum Niko Kovac, sem tók við þjálfun þýsku meistaranna í sumar.

Þýska blaðið Bild greinir frá því að Uli Höness, forseti Bayern München, stjórnarformaðurinn Karl-Heinz Rummenigge og íþróttastjórinn Hasan Salihamidzic verði á fundinum en síðast þegar þeir héldu saman fréttamannafund tilkynntu þeir um endurkomu Jupp Heynckes í þjálfarastarfið.

Wenger lét af störfum hjá Arsenal í sumar eftir 22 ára starf og í vikunni lét hann hafa eftir sér að hann hyggist snúa til baka í þjálfun fljótlega.

mbl.is