Sitja bara og glápa á símana

Sinisa Mihajlovic stýrir liði Bologna.
Sinisa Mihajlovic stýrir liði Bologna. AFP

Sinisa Mihajlovic, knattspyrnustjóri Bologna á Ítalíu, vill að leikmenn hans leggi snjallsímana til hliðar og tali meira saman.

Mihajlovic tók við liði Bologna í janúar og verkefnið er að tryggja því áframhaldandi sæti í A-deildinni. Hann hefur unnið hörðum höndum að því að efla samstöðuna í leikmannahópnum og þar koma símarnir við sögu.

„Í vikunni sýndi ég liðinu bíómynd og nokkrar myndir sem koma fótbolta ekkert við, og með því vildi ég leggja áherslu á ákveðna þætti. Ég nota hvetjandi myndir til að fá leikmennina til að skilja hversu miklu máli skipti að það séu samstaða, samtöl og vinátta í hópnum,“ sagði Mihajlovic við football-italia.net.

„Þegar ég var leikmaður spiluðum við á spil alla vikuna, fram að leikdegi. Nú sitja þeir allir saman við borð og glápa á snjallsímana sína, og enginn segir neitt. Samskiptin og samtalið skipta öllu máli, bæði innan vallar og utan,“ sagði Mihajlovic en lið hans er fjórum stigum frá því að komast úr fallsæti og tekur á móti Cagliari í dag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert