Tók Elías mínútu að skora

Elías Már Ómarsson
Elías Már Ómarsson Ljósmynd/Excelsior

Elías Már Ómarsson og liðsfélagar hans hjá Excelsior máttu þola 1:2-tap fyrir NAC Breda á útivelli í hollensku B-deildinni í fótbolta í dag. 

Elías byrjaði á varamannabekknum hjá Excelsior. Honum var skipt inn á 75. mínútu og aðeins einni mínútu síðar jafnaði hann í 1:1. Það dugði hins vegar skammt þegar sem NAC Breda skoraði sigurmark undir lokin. 

Excelsior er í fjórða sæti með 13 stig eftir sjö leiki. 

Jón Dagur Þorsteinsson og samherjar hans hjá AGF höfðu betur gegn OB á útivelli í dönsku úrvalsdeildinni í fótbolta í dag, 2:1. 

Jón Dagur var í byrjunarliði AGF og lagði upp fyrsta mark leiksins á 28. mínútu. Hann fór svo af velli á 57. mínútu í stöðunni 1:0. 

AGF er í þriðja sæti með 17 stig eftir tíu leiki, átta stigum á eftir toppliði Midtjylland.

mbl.is