Fá sömu laun og flugvélasæti

Ástralska kvennalandsliðið á æfingu í Sydney.
Ástralska kvennalandsliðið á æfingu í Sydney. AFP

Ástralska knattspyrnusambandið hefur fylgt fordæmi KSÍ, norska sambandsins og þess nýsjálenska og ákveðið að greiða leikmönnum kvennalandsliðsins sömu laun og leikmönnum karlalandsliðsins.

Kvennalandslið Ástralíu er í 8. sæti á heimslista FIFA og karlalandsliðið í 44. sæti. Karlarnir hafa fengið hærri laun greidd til þessa en samkvæmt nýjum samningum hækka laun kvennanna umtalsvert, og bæði kyn fá sama hlut í auglýsingatekjum.

Hins vegar verður það svo að leikmenn munu áfram fá 40% af verðlaunafé vegna þátttöku og árangurs á mótum, til dæmis á vegum FIFA, og þar eru mun hærri upphæðir í boði fyrir karlalandslið en kvennalandslið.

Auk þess að jafna laun felur samningur ástralska sambandsins það í sér að landsliðin æfi við sama aðbúnað og njóti sams konar umgjarðar. Þannig muni bæði lið ferðast á fyrsta farrými í flugvélum, en ekki bara karlalandsliðið eins og hingað til.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert