Emil fagnaði fyrsta sigri — kominn með jafnmarga leiki og árið 2019

Emil Hallfreðsson.
Emil Hallfreðsson. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Emil Hallfreðsson landsliðsmaður í knattspyrnu fagnaði í kvöld fyrsta sigri sínum með ítalska C-deildarliðinu Padova sem hann samdi við eftir áramótin.

Padova hafði tapað fyrstu tveimur leikjunum eftir að Emil fór að spila með liðinu en í gærkvöld fékk það Virtus Verona í heimsókn. Eftir að hafa komist í 3:1 í fyrri hálfleik innbyrti liðið kærkominn 3:2-sigur.

Emil lék allan leikinn á miðjunni hjá Padova sem er í fimmta sæti B-riðils deildarinnar með 39 stig eftir 22 leiki. Sigurliðið fer beint upp í B-deildina en næstu níu lið fara í flókið umspil í vor.

Emil hefur nú leikið jafnmarga deildaleiki á árinu 2020 og hann gerði allt árið 2019, eða þrjá talsins. Hann missti af stærstum hluta síðasta tímabils vegna meiðsla en lék þrjá leiki í lok þess með Udinese í A-deildinni. Emil var síðan samningslaus þar til hann gekk til liðs við Padova.

Viðtal við Emil eftir leik má sjá í meðfylgjandi færslu frá félaginu. 

mbl.is