Vilja losna við Danann eftir stutt stopp

Kaup Barcelona á Martin Braithwaite í febrúar voru afar umdeild.
Kaup Barcelona á Martin Braithwaite í febrúar voru afar umdeild. AFP

Forráðamenn spænska knattspyrnuliðsins Barcelona vilja losna við Martin Braithwaite í sumar en það eru spænskir fjölmiðlar sem greina frá þessu. Barcelona keypti Braithwaite í lok febrúar á þessu ári af Leganés en Börsungar virkjuðu klásúlu í samningi Danans eftir að hafa fengið undanþágu frá forráðamönnum spænsku 1. deildarinnar um að kaupa leikmann vegna mikilla meiðsla lykilmanna.

Það voru margir ósáttir við þá ákvörðun að Barcelona fengi að kaupa leikmann á meðan félagaskiptaglugginn var lokaður og ekki bætti það úr skák að Leganés fékk ekki að kaupa neinn leikmann í staðin Braithwaite, þrátt fyrir að hann hefði verið einn besti leikmaður liðsins á á tímabilinu. Braithwaite hafði skorað sex mörk og lagt upp eitt í 24 deildarleikjum með Leganés áður en hann var keyptur.

Danski sóknarmaðurinn skrifaði undir fjögurra og hálfs árs samning við Barcelona en hann er samningsbundinn Barcelona til sumarsins 2024. Þrátt fyrir það vilja forráðamenn spænska liðsins nú losna við hann en hann kostai 18 milljónir evra. Everton og West Ham eru bæði sögð áhugasöm um leikmanninn en Barcelona er ekki tilbúið að selja hann fyrir minna en 18 milljónir evra. Braithwaite verður 29 ára gamall í júní og á að baki 39 landsleiki fyrir Dani.

mbl.is