EM kvenna frestað um eitt ár

Ísland vann Ungverjaland í fyrsta leiknum í undankeppni EM.
Ísland vann Ungverjaland í fyrsta leiknum í undankeppni EM. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Knattspyrnusamband Evrópu, UEFA, hefur frestað lokakeppni Evrópumóts kvenna um eitt ár, frá sumrinu 2021 til 2022, en mótið fer fram á Englandi. Þetta kom fram á heimasíðu danska knattspyrnusambandsins rétt í þessu.

UEFA hefur ekki tilkynnt þessa ákvörðun opinberlega en almennt var reiknað með þessari færslu. Fyrst eftir að EM karla var seinkað frá 2020 til 2021, og svo þegar Ólympíuleikunum í Tókýó var frestað um eitt ár. Mörg kvennalandsliðanna sem leika í lokakeppni EM verða einnig á Ólympíuleikunum.

Ísland hefur leikið þrjá leiki í undankeppni EM 2021 og unnið þá alla en átti að spila tvo leiki núna í apríl og tvo í júní. Þeim hefur öllum verið frestað.

Uppfært:
Norska knattspyrnusambandið segir að ekki séu komnir leikdagar fyrir EM kvenna á árinu 2022 og því sé færsla mótsins þangað ekki orðin endanleg.

mbl.is