Sögðu upp lengst starfandi landsliðsþjálfara heims

Óscar Tabárez stýrði Úrúgvæ þrívegis í lokakeppni HM og komst …
Óscar Tabárez stýrði Úrúgvæ þrívegis í lokakeppni HM og komst einu sinni í undanúrslit. AFP

Lengst starfandi landsliðsþjálfara í knattspyrnu í heiminum hefur verið sagt upp störfum vegna kórónuveirunnar.

Knattspyrnusamband Úrúgvæ tilkynnti í dag að sambandið hefði vegna fjárhagsörðugleika neyðst til að segja upp 400 manna starfsliði, þar á meðal landsliðsþjálfara karla, Óscar Tabárez.

Hann er 73 ára gamall og hefur stýrt liði Úrúgvæ samfleytt í fjórtán ár, eða frá 2006. Undir hans stjórn komst Úrúgvæ í undanúrslit HM árið 2010, í fyrsta skipti í fjörutíu ár, og vann Ameríkubikarinn, Copa America, árið 2011. Þá lék liðið í lokakeppni HM 2014 þar sem það komst í sextán liða úrslit, og HM 2018 þar sem það komst í átta liða úrslit.

Þá var lið Úrúgvæ ósigrað í átján landsleikjum í röð undir hans stjórn á árunum 2011 og 2012 sem er met hjá landsliðsþjálfara þar í landi.

Þar með er Joachim Löw, þjálfari karlalandsliðs Þýskalands, orðinn sá landsliðsþjálfari sem hefur verið lengst í starfi en hann tók einnig við árið 2006 en fjórum mánuðum síðar en Tabárez.

mbl.is