Kemur ekki til greina að ljúka keppni í haust

Aleksander Ceferin forseti UEFA vonast til þess að klára Meistaradeildina …
Aleksander Ceferin forseti UEFA vonast til þess að klára Meistaradeildina og Evrópudeildina í sumar. AFP

Aleksander Ceferin, forseti evrópska knattspyrnusambandsins UEFA, er tilbúinn að spila fyrir luktum dyrum í bæði Meistaradeildinni og Evrópudeildinni til þess að klára tímabilið en hlé var gert á keppni í báðum deildunum vegna kórónuveirunnar. Forsetinn hefur einnig lagt mikla áherslu á það undanfarna daga að allar deildarkeppnir innan Evrópu verði kláraðar áður en nýtt tímabil fer af stað.

Þá greindi forsetinn frá því að ef ákveðið verður að aflýsa deildarkeppnum, án þess að klára tímabilið, eigi löndin það á hættu að missa Evrópusæti sín. „Eins og staðan er í dag vitum við lítið,“ sagði forsetinn í samtali við Sky Sports. „Við þurfum í raun bara að bíða og sjá hvernig þessi heimsfaraldur mun þróast á næstu vikum.

Það vita það allir sem hafa fylgst með fótbolta að knattspyrna er ekkert án stuðningsmanna. Það er því alltaf fyrsta val að spila með áhorfendur, frekar en án þeirra. Við gætum farið þá leið að spila restina af tímabilinu fyrir luktum dyrum og öllum leikjum yrði þá sjónvarpið en það yrði að sjálfsögðu ekki eins og með stuðningsmenn á vellinum.

Það vilja allir koma á völlinn og styðja sitt lið og það gefur leikmönnunum aukaorku að vita af stuðningsmönnunum á vellinum. Við erum að horfa á júlí eða ágúst eins og staðan er núna því við getum ekki verið að ljúka keppni í september eða október. Ef stjórnvöld gefa ekki grænt ljós munum við ekki spila,“ bætti forsetinn við. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert