Misstigu sig illa í baráttunni um Meistaradeildarsæti

Varnarmaðurinn Marin Pongracic gerði sér lítið fyrir og skoraði tvö …
Varnarmaðurinn Marin Pongracic gerði sér lítið fyrir og skoraði tvö mörk í kvöld. AFP

Marin Pongracic skoraði tvívegis fyrir Wolfsburg þegar liðið heimsótti Bayer Leverkusen í þýsku 1. deildinni í knattspyrnu í kvöld. Leiknum lauk með 4:1-stórsigri Wolfsburg en staðan í hálfleik var 1:0-eftir að Pongracic hafði komið Wolfsburg yfir á 43. mínútu. Maximilian Arnold bætti svo við öðru marki Wolfsburg á 64. mínútu og Renato Steffen bætti við þriðja markinu fjórum mínútum síðar.

Pongracic var svo aftur á ferðinni á 75. mínútu áður en Julian Baumgartinger minnkaði muninn fyrir Bayer Leverkusen sem sá aldrei til sólar í leiknum. Wolfsburg fer með sigrinum upp í 42 stig en liðið er áfram í sjötta sæti deildarinnar. Bayer Leverkusen er hins vegar áfram í fimmta sæti deildarinnar með 52 stig en liðið er með jafn mörg stig og Borussia Mönchengladbach sem er í fjórða sæti deildarinnar og jafnframt Meistaradeildarsæti.

Þá gerðu Eintracht Frankfurt og Freiburg 3:3-jafntefli í miklum markaleik. Vincenco Grifo, Nils Petersen og Lucas Höler skoruðu mörk Freiburg sem komst í 3:1 í leiknum en það voru þeir Andre Silva, Daichi Kamada og Timothy Chandler sem skoruðu fyrir Eintract Frankfurt sem er í fjórtánda sæti deildarinnar með 29 stig á meðan Freiburg er í sjöunda sætinu með 38 stig. 

Í lokaleik dagsins mættust Werder Bremen og Borussia Mönchengladbach í Bremen þar sem lokatölur urðu markalaust jafntefli. Werder Bremen er áfram í sautjánda og næstneðsta sæti deildarinnar með 22 stig, sex stigum frá öruggu sæti, en Borussia Mönchengladbach er sem fyrr í fjórða sætinu með 53 stig.

mbl.is