Gæti verið refsað fyrir að minnast George Floyd

Jadon Sancho, miðjumaður Dortmund.
Jadon Sancho, miðjumaður Dortmund. AFP

Þýska knattspyrnusambandið skoðar nú hvort fjórir leikmenn hafi brotið reglur með því að minnast Banda­ríkja­manns­ins Geor­ge Floyd í leikjum í efstu deildinni um helgina. Alþjóðaknattspyrnusambandið hefur biðlað til sérsambanda um að sýna skynsemi og næmni í slíkum málum.

Fjölmargir innan knattspyrnuhreyfingarinnar hafa minnst Floyd með táknrænum hætti en hann var drepinn af lögreglumanni sem kraup á hálsi hans og þrengdi þannig að öndunarvegi hans þangað til hann kafnaði. Miklar óeirðir hafa verið í Bandaríkjunum undanfarna daga vegna atburðarins þar sem fólk mótmælir ít­rekuðum dráp­um á svörtu fólki.

Um helgina nýttu fjórir leikmenn þýsku deildarinnar tækifærið til að vekja athygli á málinu. Weston McKennie, sem spilar fyrir Schalke, Marcus Thuram, Borussia Mönchengla­dbach, Jadon Sancho og Achraf Hakimi sem spila með Dortmund. McKennie spilaði leik Schalke með armband sem á stóð „réttlæti fyrir George“ og þeir Sancho og Hakimi voru í stuttermabolum innanundir keppnistreyjunni með sömu skilaboðum. Þá kraup Thuram á hné eftir að hann skoraði í sigri Gladbach á Union Berlín.

Þýska knattspyrnusambandið gaf í kjölfar út yfirlýsingu þess efnis að mál leikmannanna væru til skoðunar þar sem leikmönnum er óheimilt að koma pólitískum skilaboðum áleiðis, t.d. með armböndum eða látbragði. FIFA hefur einnig gefið út tilkynningu og biðlað til allra sérsambanda um að sýna nærgætni í svona málum, jafnvel þó reglurnar segi að athafnirnar séu strangt til tekið bannaðar. Segir að mótshaldarar verði að „skoða heildarsamhengið“ áður en þeir taka ákvörðun um að refsa leikmönnum.

Marcus Thuram lagðist á hné eftir að hafa skorað mark …
Marcus Thuram lagðist á hné eftir að hafa skorað mark Gladbach um helgina. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert