Ísak og félagar áfram taplausir

Ísak Bergmann Jóhannesson (8) gerir það gott með Norrköping.
Ísak Bergmann Jóhannesson (8) gerir það gott með Norrköping. Ljósmynd/KSÍ

Ísak Bergmann Jóhannesson og samherjar í Norrköping eru áfram ósigraðir á toppi sænsku úrvalsdeildarinnar í knattspyrnu eftir að hafa náð jafntefli, 1:1, á erfiðum útivelli í Malmö í kvöld.

Arnór Ingvi Traustason var ekki með Malmö í kvöld en lið hans komst yfir á 36. mínútu með marki frá Sören Rieks. Allt stefndi í fyrsta ósigur Norrköping en á 81. mínútu fór Ísak af velli og Pontus Almqvist kom í hans stað. Það var Almqvist sem jafnaði metin á 88. mínútu og 1:1 var því niðurstaðan.

Norrköping er með 17 stig á toppnum eftir sjö umferðir. Elfsborg og Mjällby koma næst með 13 stig og Sirius með 12 stig. Malmö er eitt fjögurra liða sem koma þar á eftir með 10 stig.

mbl.is