Eftirsótti framherjinn farinn til Ítalíu

Victor Osimhen í leik með Lille.
Victor Osimhen í leik með Lille. AFP

Knattspyrnumaðurinn Victor Osimhen er genginn til liðs við Napoli á Ítalíu fyrir 50 milljónir evra en hann kemur frá franska liðinu Lille.

Nígeríski landsliðsmaðurinn og framherjinn hefur verið eftirsóttur í vetur og þótti um tíma líklegt að hann færi til Englands, til Arsenal eða Liverpool. Það var hins vegar að lokum Napoli sem klófesti leikmanninn sem skoraði 13 mörk í 27 leikjum í frönsku efstu deildinni á síðustu leiktíð.

Osimhen er 21 árs gamall en hann var hjá Wolfsburg í Þýskalandi áður en hann fór til Lille í fyrra. Hann hefur skorað fjögur mörk í níu landsleikjum fyrir Nígeríu.

mbl.is