Skagamaðurinn 45 ára að taka fram skóna á ný?

Stefán Þór Þórðarson í leik með ÍA sumarið 2011.
Stefán Þór Þórðarson í leik með ÍA sumarið 2011. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Sænska dagblaðið Norrköpings Tidningar segir frá því að Skagamaðurinn Stefán Þór Þórðarson gæti tekið fram skóna eftir níu ára hlé og spilað í sænsku C-deildinni í haust. Stefán er orðinn 45 ára gamall en hann lék síðast með ÍA árið 2011.

Samkvæmt fréttinni er C-deildarliðið Sylvia að leitast eftir því að Stefán, sem spilaði um tíma með Norrköping, taki skóna fram og hjálpi liðinu að skora eitthvað af mörkum í sumar. Stefán staðfestir fréttirnar og segist vera að hugsa málið, hann gæti jafnvel setið á bekknum hjá liðinu og hjálpað eitthvað til.

Sonur hans, Oliver Stefánsson, spilar með unglingaliði Norrköping og Sylvia er nokkurs konar varalið félagsins einnig. Alfons Sampsted spilaði meðal annars fyrir liðið þegar hann var í Norrköping.

mbl.is