Rúrik á leið í dönsku úrvalsdeildina?

Rúrik Gíslason.
Rúrik Gíslason. mbl.is/Arnþór Birkisson

Svo kann að fara að Rúrik Gíslason snúi aftur í dönsku úrvalsdeildina í knattspyrnu en Ólafur Garðarsson umboðsmaður staðfestir við Tipsbladet í Danmörku að hann sé í viðræðum við félag í deildinni.

Rúrik er sá Íslendingur sem á að baki flesta leiki í dönsku úrvalsdeildinni en hann lék þar 181 leik með FC Köbenhavn, OB og Viborg en hann fór frá FCK til Þýskalands fyrir fimm árum og lék með Nürnberg og Sandhausen. Hann fékk sig lausan frá Sandhausen í sumar og hefur verið án félags síðan.

„Ég er í sambandi við félag í Danmörku sem stendur og það gæti verið áhugavert fyrir Rúrik. Það er úrvalsdeildarfélag en ég get ekki sagt meira sem stendur,“ segir Ólafur við Tipsbladet.

mbl.is