Sara Björk á leið til Danmerkur

Sara Björk Gunnarsdóttir í úrslitaleik Meistaradeildarinnar á síðustu leiktíð.
Sara Björk Gunnarsdóttir í úrslitaleik Meistaradeildarinnar á síðustu leiktíð. AFP

Sara Björk Gunnarsdóttir og liðsfélagar hennar í franska knattspyrnufélaginu Lyon mæta Brøndby í sextán liða úrslitum Meistaradeildar kvenna.

Dregið var í höfuðstöðvum UEFA í Nyon í Sviss í dag en fyrri leikirnir fara fram 3. og 4. mars. Þeir síðari fara svo fram viku seinna, 10. og 11. mars.

Lyon, sem er ríkjandi Evrópumeistari, hefur unnið keppnina undanfarin fimm ár í röð en Sara Björk gekk til liðs við Lyon síðasta sumar frá Wolfsburg.

Karólína Lea Vilhjálmsdóttir og liðsfélagar hennar í Bayern München mæta BIIK Kazygurt frá Kasakstan og Glódís Perla Viggósdóttir og liðsfélagar hennar í Rosengård mæta Kristrúnu Rut Antonsdóttur og liðsfélögum hennar í St. Pölten frá Austurríki.

Drátturinn í heild sinni:

Wolfsburg - Lillestrøm
Barcelona - Fortuna Hjörring
Rosengård - St. Pölten
BIIK Kazygurt - Bayern München
Manchester CIty - Fiorentina
Sparta Prag - PSG
Lyon - Brøndby
Chelsea - Atlético Madrid

mbl.is