Elmar og félagar úr fallsæti í fyrsta sinn

Theódór Elmar Bjarnason leikur með Lamia.
Theódór Elmar Bjarnason leikur með Lamia. Ljósmynd/Lamia

Theódór Elmar Bjarnason og samherjar hans í Lamia eru í fyrsta sinn á tímabilinu komnir úr fallsæti í grísku úrvalsdeildinni í fótbolta eftir mikilvægan útisigur í dag.

Þeir voru næstneðstir fyrir leikinn sem var gegn neðsta liðinu, Larissa. Lamia knúði fram sigur, 1:0, þar sem Bachana Arabuli skoraði sigurmarkið undir lok fyrri hálfleiks.

Elmar kom inn á sem varamaður seint í leiknum og hefur leikið ellefu af tólf leikjum liðsins síðan hann kom í raðir Lamia frá Akhisarspor í Tyrklandi um áramótin. Þegar hann kom til félagsins sat það eitt og yfirgefið á botni deildarinnar en er nú komið upp í tólfta sæti af fjórtán liðum. Liðið hélt í dag marki sínu hreinu í sjötta deildarleiknum í röð.

mbl.is