Höfum verið betri í útileikjum en heimaleikjum

Mauricio Pochettino ræðir við Marco Verratti og Mauro Icardi, leikmenn …
Mauricio Pochettino ræðir við Marco Verratti og Mauro Icardi, leikmenn París SG. AFP

Mauricio Pochettino, knattspyrnustjóri París SG, kveðst vonast eftir betri frammistöðu á heimavelli annað kvöld en að undanförnu þegar lið hans tekur á móti Evrópumeisturum Bayern München.

PSG vann glæsilegan útisigur á Þjóðverjunum, 3:2, í fyrri leik liðanna í München og stendur því vel að vígi í baráttunni um sæti í undanúrslitum. Bayern þarf að vinna tveggja marka sigur í París, eða þá vinna 4:3, til að komast áfram.

„Ég er sammála því að við höfum verið betri í útileikjum en heimaleikjum. Við verðum að huga betur að því eftir tímabilið en vonandi byrjum við að snúa því við á morgun," sagði Pochettino á fréttamannafundi í dag.

PSG vann útileikinn gegn Barcelona 4:1 í sextán liða úrslitunum en liðin gerðu jafntefli, 1:1, í París. Í frönsku 1. deildinni vann PSG 4:2-útisigur á Lyon í toppslag en tapaði síðan 0:1 fyrir Lille á heimavelli.

„Bayern er besta lið í Evrópu, og besta lið í heiminum. Þetta er spurning um hugarfar, áskorunin er mikil á morgun um að geta haldið boltanum og sært andstæðinginn. Leikurinn við Barcelona er að baki og Bayern er allt önnur saga. Við munum eiga í vandræðum á köflum í leiknum og einmitt þá þurfum við að sýna alla okkar samstöðu,“ sagði Pochettino en Bayern átti 31 skot að marki PSG í fyrri leiknum í München. Magnaðar skyndisóknir og tvö mörk frá Kylian Mbappé færðu Frökkunum hins vegar sætan sigur.

Marquinhos fyrirliði PSG verður ekki með í leiknum á morgun vegna nárameiðsla sem hann varð fyrir í fyrri leiknum. Þá er óvíst hvort Marco Verrati, sem er aftur í hópnum eftir að hafa smitast af kórónuveirunni, er klár í að taka þátt í leiknum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert