Messi gulltryggði bikarmeistaratitilinn

Barcelona er spænskur bikarmeistari í fótbolta.
Barcelona er spænskur bikarmeistari í fótbolta. AFP

Barcelona varð í kvöld spænskur bikarmeistari í fótbolta í 31. skipti með 4:0-sigri á Athletic Bilbao í bikarúrslitum en leikið var í Sevilla. Bilbao hefur tapað bikarúrslitum í tvígang á tveimur vikum en úrslitaleikur síðustu leiktíðar var leikinn í byrjun mánaðar.

Þrátt fyrir mikla yfirburði Barcelona í fyrri hálfleik var staðan í leikhléi markalaus. Það breyttist á 60. mínútu er Antoine Griezmann skoraði og aðeins þremur mínútum síðar bætti Frenkie de Jong við öðru marki Barcelona.

Eftir það var komið að Lionel Messi en argentínski snillingurinn kom Barcelona í 3:0 á 68. mínútu og síðan 4:0 fjórum mínútum síðar og þar við sat. Barcelona er sigursælasta liðið í spænska bikarnum frá upphafi.

mbl.is