Skagamaðurinn ungi orðaður við Úlfana

Ísak Bergmann Jóhannesson í leik með íslenska U21 árs landsliðinu.
Ísak Bergmann Jóhannesson í leik með íslenska U21 árs landsliðinu. Ljósmynd/Szilvia Micheller

Enska knattspyrnufélagið Wolves hefur mikinn áhuga á að kaupa Skagamanninn unga Ísak Bergmann Jóhannesson af sænska félaginu Norrköping.

Telegraph greinir frá því að enska félagið hafi fylgst með Ísak að undanförnu og vilji fá hann í sínar raðir. Á sama tíma hafa Úlfarnir áhyggjur að Ísak fái ekki atvinnuleyfi á Englandi eftir útgöngu Breta úr Evrópusambandinu.

Þrátt fyrir að Ísak sé fæddur á Englandi er ekki víst að hann fái atvinnuleyfi. Eftir útgönguna úr Evrópusambandinu þurfa leikmenn utan Englands sérstakt leyfi til að fá atvinnuleyfi og þættir eins og fjöldi landsleikja, styrkur félagsins sem selur leikmanninn og styrkur deildarinnar sem félagið sem selur leikur í hafa áhrif.

Samkvæmt Telegraph er Ísak metinn á fimm milljónir punda og er honum líkt við Gylfa Þór Sigurðsson. Ísak hefur spilað tvo landsleiki og verið í stóru hlutverki hjá Norrköping, þrátt fyrir ungan aldur.

mbl.is