Dramatískur sigur Svía - Spánverjar á skotskónum

Emil Forsberg fagnar eftir að hafa komið Svíum yfir á …
Emil Forsberg fagnar eftir að hafa komið Svíum yfir á annarri mínútu gegn Pólverjum. AFP

Svíar og Spánverjar enda í tveimur efstu sætum E-riðils Evrópumóts karla í fótbolta. Tveimur síðustu leikjum riðilsins var að ljúka en um hreina úrslitaleiki var að ræða fyrir öll fjögur liðin í riðlinum.

Svíar sigruðu Pólverja 3:2 í æsispennandi leik og unnu riðilinn með 7 stig. Spánverjar gjörsigruðu Slóvaka 5:0 og fengu 5 stig en Slóvakar fengu 3 stig og Pólverjar eitt stig.

Aðeins Svíar og Spánverjar komast áfram því stórtapið gegn Spánverjum þýðir að Slóvakar eru með lakastan árangur allra liða í þriðja sæti riðlanna og eru því úr leik. Úkraína er örugg áfram með þessum úrslitum og Finnar lifa enn í voninni um að þeir endi með betri árangur en liðið sem endar í þriðja sæti F-riðilsins en lokaumferðin í honum er leikin í kvöld.

Ljóst er að Spánverjar munu mæta Króötum í sextán liða úrslitunum en Svíar mæta  Úkraínumönnum eða Finnum. Líklega Úkraínu en það kemst á hreint eftir leiki F-riðilsins í kvöld.

Robert Lewandowski skorar fyrir Pólverja og minnkar muninn í 2:1 …
Robert Lewandowski skorar fyrir Pólverja og minnkar muninn í 2:1 . AFP

Svíar fengu sannkallaða óskabyrjun gegn Pólverjum í Pétursborg þegar Emil Forsberg skoraði strax á annarri mínútu. Forsberg var aftur á ferðinni á 59. mínútu eftir mikinn sprett Dejans Kulusevski upp allan hægri kantinn, 2:0.

Robert Lewandowski svaraði strax fyrir Pólverja með glæsilegu skoti, 2:1, og þeir skoruðu aftur nokkrum mínútum síðar en markið var dæmt af vegna rangstöðu.

Lewandowski var ekki hættur því hann nýtti sér mistök í sænsku vörninni og jafnaði metin í 2:2 á 84. mínútu. Pólverjar urðu að knýja fram sigur, þá hefðu þeir farið áfram og náð öðru sætinu af Svíum, sem voru hinsvegar öruggir áfram en hefðu fengið sterkari mótherja með því að enda í þriðja sætinu.

Í uppbótartímanum var fátt um varnir hjá pólska liðinu og það nýttu Svíar sér til fullnustu því Viktor Claesson skoraði sigurmarkið á fjórðu mínútu hans, 3:2, aftur eftir undirbúning Kulusevski.

Pablo Sarabia á fullri ferð gegn Slóvökum en hann kom …
Pablo Sarabia á fullri ferð gegn Slóvökum en hann kom að þremur marka spænska liðsins í dag. AFP

Sigur Spánverja á Slóvökum í Sevilla var afar öruggur eins og tölurnar bera með sér. Slóvökum dugði jafntefli til að komast í sextán liða úrslitin en þeir áttu aldrei möguleika. Spænska liðið hrökk loks í gang eftir tvö jafntefli og lítil tilþrif á mótinu.

Martin Dubravka varði þó vítaspyrnu frá Álvaro Morata strax á 12. mínútu en varð síðan fyrir því óláni að skora sjálfsmark á 30. mínútu þegar Pablo Sarabia átti skot í þverslá og boltinn hrökk af markverðinum í netið.

Miðvörðurinn Aymeric Laporte bætti við marki í uppbótartíma fyrri hálfleiks, 2:0, og þá voru úrslitin nánast ráðin. Sarabia skoraði á 56. mínútu eftir sendingu frá Jordi Alba og Sarabia var enn á ferð á 67. mínútu þegar hann lagði upp mark fyrir Ferran Torres, 4:0.

Annað sjálfsmark Slóvaka leit dagsins ljós á 71. mínútu og nú var Juraj Kucka sá óheppni. Lokatölur 5:0 í Sevilla.

mbl.is