Dreifum ástinni

Leon Goretzka fagnar sigurmarki sínu fyrir framan stuðningsmenn Ungverjalands.
Leon Goretzka fagnar sigurmarki sínu fyrir framan stuðningsmenn Ungverjalands. AFP

Leon Goretzka, miðjumaður þýska landsliðsins í knattspyrnu, setti inn áhugaverða færslu á samfélagsmiðlinn Twitter eftir að Þjóðverjar höfðu tryggt sér sæti í sextán liða úrslitum Evrópumóts karla í kvöld eftir jafntefli gegn Unverjalandi í München í lokaumferð riðlakeppninnar.

Goretzka byrjaði á varamannabekk Þjóðverja í leiknum en kom inn á sem varamaður á 58. mínútu og jafnaði metin fyrir þýska liðið í 2:2 á 84. mínútu. Markið var afar mikilvægt því ef Þjóðverjar hefðu tapað leiknum hefðu þeir fallið úr leik.

Í aðdraganda leiksins hafði borgarstjóri München, Dieters Reiter, óskað eftir því við evrópska knattspyrnusambandið, UEFA, að fá að lýsa Allianz-völlinn í München upp í regnbogalitunum til að sýna hinseginsamfélaginu í Ungverjalandi stuðning vegna nýrra laga sem samþykkt voru í síðustu viku í landinu sem eru talin ganga á mannréttindi samkynhneigðra.

UEFA hafnaði beiðni Þjóðverjanna á þeim grundvelli að sambandið væri bæði stjórnmálalega og trúarlega hlutlaus stofnun en yfirlýsing UEFA hefur vakið hörð viðbrögð.

„Dreifum ástinni,“ skrifaði Goretzka sem fagnaði marki sínu í kvöld með því að mynda hjarta með höndunum en hann setti meðal annars regnbogafána við færsluna sína á Twitter.

mbl.is