Tveimur leikjum frestað vegna landsliðsverkefna

Luis Suárez, leikmaður Atlético Madríd.
Luis Suárez, leikmaður Atlético Madríd. AFP

Tveimur leikjum í spænsku 1. deildinni í knattspyrnu karla hefur verið frestað vegna þess hversu seint fjöldi suður-amerískra leikmanna koma til baka frá landsliðsverkefnum sínum.

Madrídarfélögin Real og Atlético fóru þess bæði á leit við forsvarsmenn deildarinnar að fresta leikjum sem þau áttu að spila næstkomandi sunnudag vegna þess að mikill fjöldi leikmanna þeirra væri ekki væntanlegur til baka fyrr en á morgun eða laugardag.

Spænska deildin ákvað að verða við þessari ósk félaganna og því munu leikir Real Madríd gegn Athletic Bilbao og Granada gegn Atlético Madríd ekki fara fram á sunnudag. Ekki er búið að ákveða nýjan leiktíma fyrir viðureignirnar tvær.

Real sá fram á að vera án Brasilíumannanna Eder Militao og Vinícius Júnior og Úrúgvæjans Federico Valverde og Atlético án Argentínumannanna Rodrigo de Paul og Ángel Correa ásamt Úrúgvæjanum Luis Suárez.

Leikmenn félaga spænsku deildarinnar eru síður en svo þeir einu sem lenda í vandræðum vegna leikja suður-amerískra þjóða í undankeppni HM 2022 aðfaranótt föstudags, þar sem leikmenn í ensku úrvalsdeildinni, ítölsku A-deildinni og frönsku 1. deildinni munu til að mynda missa af leikjum með félagsliðum sínum um helgina.

Munurinn er hins vegar fólginn í því að spænska deildin hefur ákveðið að koma til móts við félögin sem eiga í hlut á meðan stórlið á við Liverpool, Manchester City og París Saint-Germain munu ekki geta teflt fram nokkrum af sínum sterkustu leikmönnum um helgina.

mbl.is