City tryggði sér efsta sætið með sigri gegn París SG

Gabriel Jesus fagnar sigurmarki sínu í Manchester.
Gabriel Jesus fagnar sigurmarki sínu í Manchester. AFP

Gabriel Jesus reyndist hetja Manchester City þegar liðið vann 2:1-sigur gegn París SG í A-riðli Meistaradeildarinnar í knattspyrnu í Manchester í kvöld.

Jesus skoraði sigurmark leiksins á 77. mínútu en Kylian Mbappé kom París SG yfir á 50. mínútu áður en Raheem Sterling jafnaði metin fyrir City á 63. mínútu.

Í hinum leik riðilsins vann RB Leipzig 5:0-stórsigur gegn Club Brugge í Bruges þar sem Emil Forsberg og Christopher Nkunku skoruðu tvö mörk hvor fyrir Leipzig.

Manchester City og París SG eru því komin áfram í sextán liða úrslitin en City, sem er með 12 stig, er öruggt með efsta sæti riðilsins og París SG er með 8 stig í öðru sætinu.

Leikmenn AC Milan fagna eftir mikilvægan sigur gegn Atlético Madrid.
Leikmenn AC Milan fagna eftir mikilvægan sigur gegn Atlético Madrid. AFP

Úrslitin í B-riðlinum ráðast í lokaumferðinni en Liverpool vann 2:0-sigur gegn Porto á Anfield með mörkum frá þeim Thiago og Mohamed Salah.

Þá vann AC Milan óvæntan 1:0-sigur gegn Atlético Madrid í Madríd þar sem Junior Messias skoraði sigurmark leiksins á lokamínútunum.

Liverpool, sem var komið áfram í sextán liða úrslitin fyrir leik kvöldins, er með 15 stig í efsta sætinu, Porto er með 5 stig, Atlético Madrid 4 stig og AC Milan 4 stig.

Í lokaumferðinni tekur AC Milan á móti Liverpool og Porto fær Atlético Madrid í heimsókn.

Leikmenn Real Madrid fagna marki í Sheriff í kvöld.
Leikmenn Real Madrid fagna marki í Sheriff í kvöld. AFP

Þá vann Sporting 3:1-sigur gegn Dortmund í Lissabon í C-riðlinum og er þar með komið áfram í sextán liða úrslitin þar sem liðið er með 9 stig í öðru sæti riðilsins. Dortmund kemur þar á eftir með 6 stig en getur ekki komist upp fyrir Sporting þar sem portúgalska liðið er með betri innbyrðisviðureign á Dortmund.

Þá eru Real Madrid og Inter Mílanó einnig komin áfram úr D-riðlinum eftir 3:0-sigur Real Madrid gegn Sheriff í Tiraspol.

Real Madrid er með 12 stig í efsta sæti riðilsins en Inter Mílanó er með 10 stig í öðru sætinu.

mbl.is