Minntust sex ára stuðningsmanns

Leikmenn Birmingham minntust stráksins unga í dag.
Leikmenn Birmingham minntust stráksins unga í dag. Ljósmynd/Birmingham City

Knattspyrnumenn og stuðningsmenn minntust hins sex ára gamla Arthur Labinjo-Hughes víðsvegar á völlum á Englandi í dag. Labinjo-Hughes var myrtur af föður sínum og stjúpmóður á síðasta ári.

Labinjo-Hughes var mikill knattspyrnuaðdáandi og stuðningsmaður Birmingham City sem leikur í B-deildinni.

Stjúpmóðir hans, Emma Tustin, var dæmd í 29 ára fangelsi fyrir hrottalegt morð og faðir hans, Arthur Huges, var dæmdur í 21 árs fangelsi fyrir sína aðild að málinu, en hann var fundinn sekur um manndráp.  

Stráksins var minnst á völlum víðsvegar um England.
Stráksins var minnst á völlum víðsvegar um England. Ljósmynd/Coventry City

Leikmenn Birmingham hituðu upp í treyjum með skilaboðum til Labinjo-Hughes í dag og hans var minnt á knattspyrnuvöllum víðsvegar um England.

Málið er hið hræðilegasta en Tustin og Hughes beittu strákinn unga hrottalegu líkamlegu og andlegu ofbeldi áður en hann lést, en hann lést eftir að Tustin réðst á hann og veitti honum höfuðáverka. Strákurinn var með 130 áverka er hann lést, þar af 30 á höfði og hálsi. 

Tustin tók mynd af stráknum á meðan hann lá meðvitundalaus og sendi Hughes degi fyrir andlátið. Tólf mínútum síðar hringdu þau á neyðarlínuna, en ekki tókst að bjarga lífi Labinjo-Hughes í kjölfarið. 

mbl.is