Skoruðu bara tvö mörk hjá bakverðinum

Bakvörðurinn Chaker Alhadhur átti góðan leik í markinu í kvöld.
Bakvörðurinn Chaker Alhadhur átti góðan leik í markinu í kvöld. AFP

Gestgjafarnir í Kamerún þurftu virkilega að hafa fyrir því að slá markvarðarlaust lið Kómoroseyja út í sextán liða úrslitum Afríkumótsins í knattspyrnu í kvöld.

Fyrir leik höfðu eyjaskeggjar engan markmann í sínum hópi eftir að tveir þeirra fóru í einangrun vegna kórónuveirusmits og sá þriðji var úr leik vegna meiðsla.

Vinstri bakvörðurinn Chaker Alhadhur lék í markinu hjá Kómoroseyjum og til að bæta gráu ofan á svart var fyrirliði liðsins, Nadjim Abdou, rekinn af velli strax á 7. mínútu.

En Kamerúnum gekk illa að skora hjá bakverðinum sem varði nokkrum sinnum mjög vel. Hann réð þó ekki við skot frá Karl Toko Ekambi og Vincent Aboubakar á 29. og 70. mínútu.

Tíu Kómorosmenn gáfust ekki upp og minnkuðu muninn með marki frá Youssouf M'Changama tíu mínútum fyrir leikslok. Lokatölur urðu því 2:1 fyrir Kamerún og smáliðið sem sló Gana út í riðlakeppninni getur haldið heim á eyjarnar sínar í Indlandshafi með höfuðið hátt.

Þá eru fjögur lið komin í átta liða úrslitin, Kamerún, Gambía, Túnis og Burkina Faso. Hinir fjórir leikir sextán liða úrslitanna fara fram næstu tvo daga.

mbl.is