Cloé Eyja skoraði gegn Guðrúnu

Martina Lenzini í baráttu við Vivianne Miedema í leik Juventus …
Martina Lenzini í baráttu við Vivianne Miedema í leik Juventus og Arsenal í kvöld. AFP/Marco Bertorello

Benfica vann sterkan 1:0-sigur á Guðrúnu Arnardóttur og stöllum hennar í Rosengård í D-riðli Meistaradeildar Evrópu í knattspyrnu kvenna í kvöld þar sem hin kanadísk/íslenska Cloé Eyja Lacasse skoraði sigurmarkið.

Sigurmark Cloé Eyju, sem lék með ÍBV um fimm ára skeið og fékk svo íslenskan ríkisborgararétt, kom um miðjan fyrri hálfleik.

Hún lék allan leikinn í fremstu víglínu hjá Benfica og slíkt hið sama gerði Guðrún í vörn Rosengård.

Glódís Perla Viggósdóttir lék allan leikinn í vörn Bayern München þegar liðið mátti sætta sig við 0:3-tap fyrir Barcelona á Nývangi.

Cecilía Rán Rúnarsdóttir var varamarkvörður Bayern í kvöld en Karólína Lea Vilhjálmsdóttir er enn frá vegna meiðsla.

Að þremur umferðum loknum í D-riðlinum er Barcelona í efsta sæti með fullt hús stiga, 9, Bayern í öðru með 6 stig, Benfica í þriðja með 3 og Rosengård er á botninum án stiga.

Í C-riðlinum gerðu Juventus og Arsenal 1:1 jafntefli, en Sara Björk Gunnarsdóttir var ekki í leikmannahópi Juventus vegna meiðsla.

Arsenal er áfram á toppi riðilsins með 7 stig, Juventus er í öðru sæti með 5 og Lyon kemur þar á eftir með 4.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert